Ásmundur Friðriksson þingmaður sjálfstæðisflokksins vill láta „kanna bakgrunn“ múslima á Íslandi í þeim tilgangi að „vernda Íslendinga“ enda sé „öryggi þjóðarinnar“ undir. Ásmundur bætti svo um betur í hádegisfréttum RÚV og segist vilja „vara við þeirri hættu sem fylgt hefur mörgum hópum“ og hann vilji ræða það “hvernig við getum boðið þessu fólki að búa hérna.“ Sjálfur segist Ásmundur ekki vera „uppfullur af fordómum - almennt“.
Enn hef ég ekki heyrt forystufólk sjálfstæðisflokksins mótmæla ummælum Ásmundar, fyrir utan nokkra úr ungliðastarfi sjálfstæðisflokksins og einn borgarfulltrúa flokksins. Enn hefur ekkert heyrst frá þingflokknum, formanni þingflokks eða ráðherrum sjálfstæðisflokksins. Kannski eru fleiri þingmenn sjálfstæðisflokksins á sömu skoðun og Ásmundur? Í ljósi sögunnar væri það hins vegar ósanngjarnt að gera þá kröfu að hinn stjórnarflokkurinn mótmælti yfirlýsingum þingmannsins.
Ásmundur Friðriksson á sér örugglega marga fylgismenn og einhverjir eru honum líklega sammála í afstöðu hans gegn múslimum. Kannski verður framganga hans nú honum til vegsauka og virðingar innan sjálfstæðisflokksins.
Kannski ekki.