Forsætisráðherra Íslands fékk boð um að sameinast öðrum þjóðarleiðtogum í mótmælagöngu gegn ofbeldi í París í gær. En hann þáði það ekki. Undir miðnætti í gær kom orðsending frá ráðuneytinu þar sem segir að „vegna ýmissa samverkandi þátta, einkum skamms fyrirvara, ferðatíma og dagskrár ráðherra, var hvorki forsætis- né utanríkisráðherra fært að taka þátt í göngunni.“
Skoðum þetta aðeins betur.
1. Skammur fyrirvari. Jú, það er rétt. En sú ástæða kom ekki í veg fyrir að forsætisráðherrar allra Norðurlandanna mættu á staðinn sem og tugir annarra víðs vegar úr heiminum.
2. Ferðatími. Samkvæmt áætlun Icelandair tekur flugið til Parísar tæpa 3,5 tíma. Ráðherrann hefði þess vegna getað flogið út í gær (með Icelandair eða öðrum flugfélögum) og verið mættur til vinnu í dag ef því hefði verið að skipta.
3. Dagskrá ráðherra. Hvaða dagskrá er það? Er hægt að fá að sjá hana? Hvað var hann að fást við í gær sem var svona mikilvægt? Miðað við fjölmiðla virðist þetta hafa verið tiltölulega róleg helgi hjá ráðherranum og ekkert sérstakt um að vera. Þessi afsökun dugði ekki leiðtogum annarra og margfalt stærri þjóða til að mæta ekki til Parísar í gær.
Afsakanir forsætisráðherra Íslands halda ekki þegar betur er í þær rýnt.
Forsætisráðherra Íslands verður að útskýra betur hvers vegna hann kaus að sitja heima á meðan aðrir þjóðarleiðtogar streymdu til Parísar.
Það væri t.d. verðugt dagsverk fyrir fyrsta aðstoðarmann ráðherra (sem gárungarnir kalla orðið Jóhannes útskýrara) á þessum ágæta mánudegi að skýra málið.