Til minnkunar biskupi og þjóðkirkju

Ég gekk í sunnudagaskóla kirkjunnar í Ólafsfirði þegar ég var barn eins og flest önnur börn í þorpinu. Það var fínn félagsskapur í annars fábreyttu félagslífi okkar. Síðar fór ég stundum með mín börn í sunnudagaskólann í sömu kirkju. Það gekk svona upp og ofan. Eftir því sem ég best veit er ekkert sérstaklega haldið að barnabörnum mínum að taka þátt í kirkjulegu starfi. Það kemur þó fyrir. Ekkert okkar telst vera kirkjusækið fólk í dag. Það ætti þó kannski frekast við um okkur hjónin ef út í það er farið.
Við höfum í tvígang verið með erlenda skiptinema á heimilinu. Annar þeirra fór einu sinni með okkur í óhefðbundna athöfn í kirkju. Hinn aldrei. Það var hvorki áhugi á því af þeirra hálfu þegar eftir var spurt, né lögð sérstök áhersla á það af okkur sem fóstruðum þau um tíma. Báðir þessir nemar voru þó nokkuð áhugasamir um Ísland, íslenska siði og það sem íslenskt getur talist.
Öll erum við góðir og gegnir þegnar hvert í sínu landi og reynum að standa okkar plikt.
Mér finnst að biskup þjóðkirkjunnar eigi að útskýra betur hvað hún á við með þessum orðum sínum: „Þetta er hluti af fræðslu, þetta er hluti af menningararfi þjóðarinnar. Og þetta er hluti af því að börn sem eru ekki fædd hér til dæmis, eða eiga ekki foreldra sem hafa fæðst hér, læri það, hvað það er að vera Íslendingur og hvað það er að búa hérna vegna þess að lög og reglur okkar eru miðaðar við kristin gildi og ég held að það sé svo mikilvægt.“
Satt best að segja finnst mér þetta vera biskupi og þar með þjóðkirkjunni til minnkunar.