Eftir fyrsta yfirlestur á breytingartillögum ríkisstjórnarinnar við sitt eigið fjárlagafrumvarp kemur í ljós að um er að ræða mikla pólitíska leiksýningu eins og búast mátti við.
Skoðum það aðeins:
Háskóli Íslands fær 298,6 milljónir til að mæta kostnaði vegna umframnemenda.
Þetta er samkvæmt plani sem lagt var upp með á síðasta kjörtímabili.
Háskólinn í Reykjavík 257,1 milljónir til að styrkja rekstrargrundvöll skólans
Hver er skýringin á því að einkaskólinn fær nánast sömu upphæð og Háskóli Íslands sem þó er með átta sinnum meiri rekstrur samkvæmt fjárlögum (bls. 27-28)?
Landspítalinn 1 mia.kr.
Þetta er um 2% af rekstri spítalans og langt frá því sem á þarf að halda. Kemur þó vonandi í veg fyrir að sjúkrahúsinu verði breytt í gámaspítala. Framlög vegna tækjakaupa eru í samræmi við áætlun sem unnið hefur verið eftir frá fjárlögum 2013.
Framlag til undirbúnings á byggingu nýs sjúkrahúss 875 m.kr.
Formaður fjárlaganefndar gerir lítið úr þessu og segir framlagið frekar vera táknrænt en ákvörðun um að hefja byggingu sjúkrahúss. Sem er rétt hjá henni. Núverandi ríkisstjórn hætti við byggingu sjúkrahússins í fyrra. Ekkert nýtt við þetta.
Vinnumálasjóður 150 m.kr. framlag sem verið hefur tímabundið á undanförnum árum verði varanlegt.
Þetta er ekki viðbót, heldur verið að gera tímabundið framlag varanlegt.
Brothættar byggðir 50 m.kr. verkefni sem sett var af stað á síðasta kjörtímabili verði haldið áfram.
Þetta er ekkert nýtt, heldur verið að halda áfram með verkefni sem sett var af stað árið 2012. Ætluðu menn kannski að hætta við þetta?
Tímabundið framlag til RÚV 181,9 m.kr.
Þetta er u.þ.b. sama upphæðin og RÚV vantaði til að greiða af lánum sínum í ár og var frestað til næsta árs. M.ö.o. þetta er líklega ekki ætlað til aukins rekstrar heldur til að borga af láni sem átti að borga á árinu 2014.
Aukin framlög til vegagerðarinnartil vetrarþjónustu (snjómoksturs) og viðhalds.
Nánast þær sömu og skornar voru niður í frumvarpinu í haust. Engar nýframkvæmdir aðeins lágmarks viðhald.
Hætt verði við að fella niður 200 m.kr. til starfsendurhæfingarsjóðs.
Fallið frá hluta niðurskurðarins! Ekki nýir peningar, bara minni niðurskurður.
Frestun á lækkun á framlagi til jöfnunar á örorkubyrði um hálft ár 344 m.kr.
Hér er verið að fresta lækkun á framlagi um hálft ár. Lækkunin kemur til framkvæmda 1. júlí 2015 í stað 1. janúar.
Breyting á launakjörum starfsfólks öldrunarstofnana í samræmi við kjarasamninga!
710 m.kr. vegna breytinga á kjarasamningum – þó það nú væri!
Áhrif af flýtingu millifærslunnar um eitt ár – 2,4 mia.kr.!
Reiknaðar stærðir, en hvorki auknar tekjur né aukin gjöld.
Barnabætur aukast um 1 mia.kr. til að mæta hækkun á matarskatti.
Þetta verður tekið af fólki aftur með hækkun matarskatts.
Sjúkratryggingar aukast um 1,1 mia.kr. vegna endurmats á útgjöldum og aukins lyfjakostnaðar.
Raunverulegur kostnaður færður til bókar – ekki ný útgjöld.
Útgjöld til almannatrygginga aukast um 600 m.kr. vegna endurmats á raunútgjöldum.
Raunveruleg útgjöld færð til bókar – ekki ný útgjöld.