Skattar og verðmætasköpun

Egill Helgason, sá ágæti bloggari og þjóðfélagsrýnir, skrifar á svæði sitt í dag pistil um verðmætasköpun og skattlagningu. Egill skrifar m.a.: „Það er ljóst að verðmætasköpunin þarf að verða meiri í íslensku hagkerfi. Annars lagast þetta ástand varla. - Það er öruggt að við skattleggjum okkur ekki út úr þessu.“
Það er alveg rétt hjá Agli að verðmætasköpun þarf að vera meiri og án hennar þokumst við lítið ef nokkuð áfram.
Hin fullyrðingin þarfnast rökræðu.
Formenn hægriflokkanna sungu þennan söng allt síðasta kjörtímabil. „Við skattleggjum okkur ekki út úr kreppunni“, sagði Bjarni Benediktsson á fundi sjálfstæðismanna 2010 og hinn tók reglulega undir  með honum. Undirliggjandi í þessari fullyrðingu er að ekki eigi að hækka skatta til að afla tekna, nóg sé að auka verðmætasköpun og þá muni annað lagast meira og minna af sjálfu sér. Markaðurinn muni leita jafnvægis eins og gjarnan er sagt.
Hvar hefur það gerst?
Auðvitað nægir skattlagning ein og sér ekki til að létta okkur lífið. Hver hefur verið að tala um það? En aukin skattheimta í þeim anda sem vinstristjórnin stóð fyrir er bæði nauðsynleg til að afla ríkissjóði tekna og auka jöfnuð í samfélaginu. Þannig þokuðumst við nær þeim samfélögum sem við viljum miða okkur við, öfugt við það sem nú er að gerast og þannig er líklegra að við náum að komast út úr erfiðleikunum með ásættanlegum hætti.
Ætli niðurstaðan sé þá ekki einhvern veginn þannig að nauðsynlegt sé að auka verðmætasköpun og afla ríkissjóði skatttekna af þeim verðmætum með réttlátara skattkerfi en þekktist hér fyrir Hrun?
Það var ekki svo burðugt þegar á reyndi.