Hver sáttahöndin upp á móti annarri ...

Áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna var samþykkt í mars 2011. Hún tekur m.a. mið af því að draga sem mest úr áhrifum afnámsins á lífskjör almennings. Formenn núverandi stjórnarflokka fundu þessari áætlun allt til foráttu á síðasta kjörtímabili. Helst af öllu fannst þeim samt að hlutirnir myndu ekki ganga nægilega hratt fyrir sig, það væri ekkert mál að afnema höftin á nokkrum vikum eða mánuðum. Sögðu þeir þá. Frá því að ríkisstjórn þeirra tók við völdum vorið 2013 hafa þeir hins vegar gefið út margar samhengislausar yfirlýsingar um afnám haftanna sem við búum enn við.
Eitt er þó alveg á hreinu: Áætlunin frá 2011 er enn í gildi og eftir henni er unnið.
Það er líka komið annað hljóð í strokkinn hjá formönnum stjórnarflokkanna. Fjármálaráðherra gaf í dag út skýrslu um framgang áætlunarinnar. Þar segir m.a. þetta: „Skilyrði til þess að stíga næstu skref í losun fjármagnshafta hafa batnað frá síðustu greinargerð í mars 2014. Aðgengi ríkissjóðs að erlendum lánamörkuðum er gott um þessar mundir eins og útgáfa evruskuldabréfa ríkisins í júlí s.l. staðfesti og fjármögnunarkjör hafa haldið áfram að batna eftir því sem hefur liðið á árið.“
Í skýrslunni er svo farið ágætlega yfir framgang áætlunarinnar, bæði í texta og myndum. Ráðherrann virðist nokkuð ánægður með áætlunina sem hann var svo mikið á móti áður. Það hefur a.m.k. engin önnur komið fram svo vitað sé. Enda hefur ekkert betra komið fram.
Og hver sáttahöndin upp á móti annarri á kærleiksheimilinu eins og venjulega.