Ráðist að starfsmönnum rannsóknanefnda Alþingis

„Ég mun krefjast upp­lýs­inga um laun allra nefnd­ar­manna í þrem­ur rann­sókn­arnefnd­um Alþing­is við þing­byrj­un.“ (Karl Garðarsson)

Stuttu fyrir jól árið 2008 samþykkti Alþingi lög um rannsókn á Hruninu. Fyrsti flutningsmaður málsins á þingi var Sturla Böðvarsson, þáverandi forseti Alþingis. Meðflutningsmenn voru formenn allra stjórnmálaflokka sem þá áttu sæti á Alþingi. Niðurstaða rannsóknarinnar vakti mikla athygli bæði hér heima og erlendis. Síðan hafa tvær rannsóknarnefndir til viðbótar skilað skýrslum um einstaka þætti Hrunsins. Allar þrjár skýrslur rannsóknanefnda Alþingis standa fyrir sínu. Þær eru upplýsandi og fræðandi og þær eru allar góðar heimildir um það sem hér gerðist í aðdraganda Hrunsins og mun hafa áhrif á lífskjör almennings næstu áratugina.
En niðurstaða rannsóknarnefndanna fellur ekki öllum í geð. Þeir eru því miður til sem treysta sér ekki til að gangast við fortíðinni, hvað þá að læra af mistökum sínum eða forvera sinna.
Það fólk gerir hvað sem það getur til að grafa undan trúverðugleika þeirra rannsókna sem Alþingi sjálft lét gera á orsökum og afleiðingu Hrunsins. Þekktasta bragðið í þeim leik er að tortryggja þá sem rannsökuðu. Væna þá um óheiðarleika. Gefa í skyn að þeir hafi haft annarlegra hagsmuna að gæta. Að þeir hafi ekki verið trúir verkefninu sem þingið fól þeim að vinna.
Þetta er einmitt það sem Karl Garðarsson, eitt af undrum framóknarflokksins, ætlar að gera. Hann ætlar að draga alla þá fram sem komu að rannsókn Hrunsins. Hvern einasta einstakling. Nafn fyrir nafn. Andlit fyrir andlit svo enginn velkist í vafa um hvaða óþokkar það voru sem skrifuðu skýrslurnar um Hrunið. Skýrslurnar sem hægrimenn svíður enn undan. Skýrslurnar sem rekja ævintýraleg afglöp íslenskra hægrimanna, lið fyrir lið, þar til allt hrundi í hausinn á okkur.
Skýrslurnar sem ætti að ræða við upphaf hvers þings.