Góð afkoma hjá Samherja

Afkoma Samherja og dótturfélaga þess á árinu 2011 var sú besta í sögu fyrirtækisins. Hagnaðurinn það árið nam um 9 mia.kr. Árið 2012 var enn betra að þessu leyti þegar hagnaður fyrirtækisins var um 16 mia.kr. Og enn er slegið met á árinu 2013 þegar fyrirtækið og félög þess skila hagnaði upp á 22 mia.kr. Ríflega þriðjungur hagnaðar þess árs er vegna sölu eigna.
Frá Hruni hafa skuldir Samherja lækkað um 158 milljónir evra (24 mia.kr) og eigið fé aukist á sama tíma um 173 milljónir evra (26,5 mia.kr.). Það er greinilegt að eigendur fyrirtækisins hafa lagt mikla áherslu á það frá Hruni að greiða niður skuldir og tryggja þannig eignarhaldið og framtíð fyrirtækisins. Það er nú ljóst að það hefur verið rétt ákvörðun enda er efnahagur Samherja afar sterkur í dag.
Sjálfur hefði ég viljað sjá fyrirtækið greiða hærra veiðigjald en það gerir og lagði mitt af mörkum til þess. Ég er hins vegar í miklum minnihluta í því máli eins og mörgum öðrum.
Hvað sem því líður þá sýnir ársreikningur Samherja og dótturfélaga þess að fyrirtækið er gríðarlega sterkt og í mikilli uppbyggingu, eins og svo mörg önnur sjávarútvegsfyrirtæki.
Ekki er við öðru að búast en að yfirstandandi ár verði þeim flestum,a.m.k. jafn gott ef ekki betra en síðasta ár.