Þegar tillögur um lækkun húsnæðisskulda voru kynntar fyrir þingflokki framsóknarflokksins, brast ein þingkona flokksins í grát. Hún grét af skömm yfir því að hafa logið að kjósendum sínum. Hún grét af skömm yfir því að flokkurinn hennar ætlar hiklaust og án málalenginga að svíkja stærsta kosningaloforð í 100 ára sögu flokksins. Stærsta loforð allra tíma. Loforð sem leiddi til kosningasigurs og forystu framsóknar í ríkisstjórn með sjálfstæðisflokknum.
Hvar er hún nú, þingkonana sem grét af skömm yfir sviknum loforðum? Hvað finnst henni um niðurstöðuna eins og sjálfur verkefnastjórinn hefur lýst henni fyrir alþjóð?
Hefur hún kannski ekki verið spurð og ef ekki - þá hvers vegna?
Það er skiljanlegt að þingkonan hafi grátið og skammast sín en að sama skapi óskiljanlegt að ekki hafi brotist út fjöldagrátur í þingflokknum á umræddum fundi. Það bendir til þess að það sé aðeins einn framsóknarmaður á Alþingi sem kann að skammast sín.
Hinir virðast hafa logið úr sér alla glóru.