Nú er ég loksins tilbúinn - held ég.

Á sínum tíma voru allir drengir í Ólafsfirði skráðir í karladeild Slysavarnafélagsins í þorpinu. Grímur hét gjaldkeri félagsins, naskur karl og næmur á fólk. Hann sá líka um innskráningu nýrra félaga, þ.á.m. ungra drengja. Það var ekki öllum ljóst hvaða viðmið eða skilyrði Grímur notaði við skráningu en gárungarnir sögðu að hann miðaði við að við værum orðnir kynþroska. Ég man það enn eins og gerst hefði í gær þegar Grímur kom heim til að rukka í fyrsta sinn árgjaldið í félaginu vegna mín. Mamma borgaði og Grímur og pabbi spjölluðu svo smá stund í dyragættinni og lá vel á þeim.
Ení vei.
Við þóttumst menn með mönnum strákarnir í þorpinu að vera fullgildir félagar í Slysavarnafélaginu. Sumir okkar þóttust þá þegar tilbúnir til að eignast börn. Sem reyndist rétt í einhverjum tilvikum. Börn eignuðust börn. Sumir okkar urðu þá líka hræddir og grétu heima hjá mömmu sinni og pabba. Minnir mig.
Það var þá að vísu ákveðin skörun á líkamlegri getu og andlegri hjá ungum drengjum í Ólafsfirði varðandi barneignir rétt eins og nú. Ég man samt ekki eftir því að það hafi verið mikið um það rætt. Sem hefði auðvitað þurft að gera. Ég man ekki heldur hvenær ég varð algjörlega tilbúinn til þess að eignast börn. Þegar ég hugsa um það núna finnst mér það hafa verið þegar ég hafði eignaðist öll börnin mín og barnabörnin fóru að koma í heiminn.
Annars skiptir þetta engu máli.
Mér datt þetta bara í hug með morgunkaffinu.