Ágætt innlegg frá Þorsteini Pálssyni

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, skrifar nokkuð athyglisverða grein um Seðlabanka Íslands í Fréttablaðið. Þorsteinn vill meina að með breytingunni sem gerð var á lögum um bankana í febrúar 2009 hafi sjálfstæði Seðlabankans „veikst um of“ eins og hann segir þar sem skipunartími bankastjóra hafi verið ákveðinn of skammur. Þorsteinn nefnir ekkert annað en ráðningartímann í þessu samhengi og bendir á að lagabreytingin hafi að flestu leyti orðið til góðs. Þorsteinn telur það hafa verið ágalla á lagasetningunni að hún hafi verið gerð „í tímaþröng og án þeirrar breiðu samstöðu sem náðist um fyrri skipan mála“ og að æskilegt sé að freista þess að ná breiðri samstöðu um hlutverk og skipulag „… þessarar lykilstofnunar í efnahagsbúskap þjóðarinnar.“
Umrædd lagabreyting var óhjákvæmileg. Seðlabankinn var hruninn og stjórnendur hans rúnir öllu trausti. Þeir neituðu að yfirgefa bankann og axla ábyrgð, eins og Þorsteinn bendir réttilega á. Þar fyrir utan hafði stjórnskipulag bankans verið gallað í mörg herrans ár þar á undan. Það var því frá öllum hliðum bráðnauðsynlegt að breyta lögum um Seðlabankann í því skyni að styrkja faglegt starf hans og skapa skilyrði til að ávinna bankanum traust. 
Það var hins vegar tómt mál að tala um að ná samstöðu um það á þeim tíma. Um það vitna ræðuhöld sjálfstæðismanna í þinginu um málið og atkvæðagreiðslur sömuleiðis. Það voru nefnilega ekki bara stjórnendur bankans sem neituðu að axla ábyrgð heldur og ekki síður þingmenn sjálfstæðisflokksins sem lögðust allir sem einn gegn lagasetningunni.
Augljóst er að með lagabreytingunni var sjálfstæði Seðlabanka Íslands styrkt og faglegt starf hans ekki síður eflt frá því sem áður var, öfugt við það sem Þorsteinn heldur fram. Um það eru menn sammála enda vandséð hvernig hægt var að veikja bankann frekar en orðið var. Í því sambandi skiptir ekki öllu hvort ráðningartími bankastjóra hafi verið ákveðinn 5, 7 eða 10 ár. Það breytir því samt ekki að rétt sé að ræða það frekar hvort ástæða sé til að gera breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands hvað þetta varðar og efla sjálfstæði hans enn frekar. Ég veit hins vegar að það er ekki ástæðan fyrir því að stjórnarflokkarnir vilja nú gera breytingar í bankanum. Þar býr allt annað að baki.
Það er ástæða til að þakka Þorsteini Pálssyni fyrir ágætt innlegg hans í þessa umræðu. Um leið má spyrja hvers vegna svo lítið heyrist í starfandi stjórnmálamönnum um þetta mikilvæga mál.
Kannski er það rigningin.