Niðurstaða nefndarinnar er hneyksli

Breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands í ársbyrjun 2009 höfðu það fyrst og síðast að markmiði að reisa bankann frá þroti og skapa honum skilyrði til að vinna nauðsynlegt traust á honum og þar með á efnahag landsins í kjölfar Hrunsins. Með breytingunni var í fyrsta skipti gerð lagaleg krafa um hæfi bankastjóra. Bankastjórum var fækkað úr þremur í einn og sérstök peningastefnunefnd var sett á laggirnar sem hafði það meginhlutverk að ákvarða vexti í landinu. Í stórum dráttum var markmið laganna að gera Seðlabankann að faglegri, sjálfstæðri stofnun, óháða pólitískum duttlungum stjórnvalda hverju sinni.
Núverandi fjármálaráðherra skipaði nefnd til að meta hæfi umsækjenda um starf Seðlabankastjóra. Nefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að þrír umsækjendur séu hæfastir og jafnhæfir til að gegna stöðunni. Munur á milli þeirra þriggja hæfustu og þess minnst hæfasta er aðeins þrjú stig.
Með fullri virðingu fyrir háskólakennurunum tveimur, Ragnari Árnasyni og Friðriki Má Baldurssyni, komast hvorki þeir né aðrir umsækjendur með tærnar þar sem Már Guðmundsson, núverandi bankastjóri, hefur hælana hvað hæfi varðar. Enginn Íslendingur hefur reynslu á við Má á þessu sviði eða hefur nokkur slíkur öðlast sambærilegan frama og virðingu á erlendum vettvangi.. Þetta er óumdeilt, hvaða skoðun sem menn kunna annars að hafa á Má Guðmundssyni eða um hann að segja að öðru leyti.
Niðurstaða nefndarinnar er því hneyksli og ber því miður vitni um vilja stjórnvalda til að færa Seðlabanka Íslands aftur á fyrri veg pólitískrar spillingar.
Sem yrði ömurleg niðurstaða fyrir okkur öll.