Þvílíkt væl!

Tónlist, stjórnmál, veiði, íþróttir. Þetta hafa verið helstu áhugamál mín í lífinu. Nokkurn veginn í þessari röð, þó ekki alltaf. Fór eftir árstíma og æviskeiði. Ég hóf að fylgjast með stjórnmálum sem barn, fannst þau alltaf spennandi og hafði gaman af þeim. Byrjaði að sækja pólitíska fundi þingmanna áður en ég komst á unglingsárin. Man eftir að hafa verið vísað af fundi framsóknarmanna í Ólafsfirði vegna ungs aldurs og meinaður aðgangur að fundi sjálfstæðismanna af sömu sökum. Aðrir tóku manni betur.
Ég tók fyrst þátt í kosningabaráttu vorið 1974, þá tæplega fjórtán ára þegar sameinaðir vinstrimenn felldu áratuga meirihluta sjálfstæðismanna í Ólafsfirði. Síðar sat ég í 12 ár í bæjarstjórn Ólafsfjarðar og vann fyrir bæinn á vettvangi sveitastjórnarmála eftir það. Mér gekk alltaf best að vinna með framsóknarmönnum í Ólafsfirði. Þeir voru vinstrimenn, félagshyggjufólk og traustir í samstarfi.
Ég veit ekki hvaðan þessi áhugi á stjórnmálum kom. Það var ekki mikið rætt um pólitík á heimilinu, það var þá helst pabbi sem lét það eftir sér. Hann var lengst af sjálfstæðismaður en gerðist flokknum fráhverfur þegar hann var kominn á efri ár af mörgum ástæðum. Mogginn var eina blaðið sem kom á heimilið. Ég lærði fljótt að þar var ekki alltaf allt sannleikanum samkvæmt frekar en nú.
Pólitíkin í Ólafsfirði var eins og í svo mörgum sjávarplássum mörkuð af stéttabaráttu og átökum og því oft hörð fyrir vikið, rétt eins og í landsmálunum. Það var örugglega oft ástæða fyrir fólk úr öllum flokkum til að kveinka sér undan umræðunni. Kannski var það þess vegna sem fundir sjálfstæðis- og framsóknarmanna voru bannaðir börnum.
Aldrei, á öllum þessum tíma man þó ég eftir öðrum eins skælum og hafa komið frá framsóknarflokki Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar síðasta árið.
Þvílíkt væl!