Þann 26. nóvember 2008 fluttu formenn allra stjórnmálaflokka á Alþingi ásamt forseta þingsins frumvarp til laga um rannsókn á aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna og tengdra atburða. Frumvarpið varð að lögum undir lok þess sama árs. Tilgangurinn var augljós og engum datt þá í hug að skipa ætti rannsóknarnefnd sem hefði það að markmiði að skrifa söguna með pólitísk markmið stjórnvalda í huga. Málið var stærra en svo og mennirnir sömuleiðis.
Það er ekki fyrr en núna sem þeir verða svo litlir í sér.
Úti í heimi furða menn sig á því að nú, örfáum árum frá hinu fullkomna íslenska Hruni, ætli hérlend stjórnvöld að gera seðlabanka þjóðarinnar aftur að pólitískum leikvelli helmingaskiptaflokkanna líkt og tíðkaðist fyrir Hrun.
Ísland var trausti rúið haustið 2008 og var í raun einangrað á alþjóðavettvangi. Seðlabankinn Ísland hafði þá minna en enga tiltrú á fjármálamörkuðum. Frá þeim tíma hefur okkur tekist hægt og bítandi að endurheimta hluta þess orðspors sem við misstum. Fjármálaráðherra hefur ákveðið að láta það allt lönd og leið í skiptum fyrir pólitíska hagsmuni sjálfstæðisflokksins. Það á að endurskrifa söguna og það á að færa yfirstjórn Seðlabankans aftur upp í Valhöll. Skítt með allt annað.
Karíus og Baktus verða svo væntanlega fengnir til að rannsaka áhrif sælgætis á tannheilsu barna - frá þeirra sjónarhóli séð.
Niðurstaðan er fyrirséð.