Þeir ættu að skammast sín!

Nú vonast ég til þess að einhver góðhjartaður maður geti útskýrt það hvernig boð í laxveiði getur verið opinber embættisskylda ráðherra. Hvernig dettur mönnum í hug að halda slíku fram? Hvernig gagnast boðsferðin þjóðinni? Er hún líkleg til að auka hagsæld, draga úr verðbólgu, tryggja efnahagslegan stöðugleika, auka traust á stjórnmálamönnum, sætta þjóðina við sitt hlutskipti, draga úr atvinnuleysi, efla samskipti Íslands við aðrar þjóðir, afnema gjaldeyrishöftin, liðka fyrir samningum við kröfuhafa í þrotabú Hrunsins eða draga úr halla á viðskiptajöfnuði – svo fáein dæmi séu nefnd? 
Ríkisstjórn vinstriflokkanna setti sér siðareglur og var það í fyrsta sinn í sögu þessarar þjóðar sem það var gert. Þeim reglum verður hent út í Norðurá snemma í fyrramálið þaðan sem þær munu svo renna til sjávar og gleymast. Vonandi munu fjölmiðlar vera á staðnum til vitnis um þann atburð. Það mun auðvelda næstu rannsóknarnefnd störf sín að hafa þetta vel skráð.
Það tók þá fóstbræður, Bjarna Benediktsson og Sigmund Davíð Gunnlaugsson, ekki nema rétt slétt ár að skutla pólitísku siðferði aftur til áranna fyrir Hrun.
Þeir ættu að skammast sín, báðir tveir.

PS:
Heyrði í dag að Ragnheiður Elín Árnadóttir ferðamálaráðherra hafi þegið boð Samtaka hótel- og gistihúsaeigenda um "ókeypis" gistingu fyrir sig og familíuna á hringferð þeirra um landið í sumar. Það mun vera liður í því að bæta ímynd greinarinnar sem hefur mátt þola illt tal um svarta starfsemi að undanförnu.