Það eru nokkrir þættir öðrum fremur sem ógna mjög íslensku efnahagslífi. Fyrst er til að nefna gjaldeyrishöftin, afleiðingu þeirra og hvernig og þá hvenær losað verður um þau. Um það mál virðist ríkja einhver glundroði og óstjórn af hálfu stjórnvalda. Þar næst er svo óvissa sem stjórnvöld sjálf hafa skapað með aðgerðum sínum í efnahagsmálum. Þar ber hæst stóru millifærsluna, óljós áform um afnám verðtryggingar og óskýra framtíðarsýn í stærstu málum.
Fjármálaráðuneytið spáir því að viðskiptajöfnuður landsins muni versna um 125 mia.kr. á næstu fjórum árum, eingöngu vegna stóru millifærslunnar. Er þá allt annað ótalið. Þetta þýðir að Ísland mun m.a. lenda í verulegum vandræðum með greiðslur á samningsbundnum afborgunum á næstu árum. Það mun kalla á mótvægisaðgerðir stjórnvalda sem verða að leiða til þess að gengi krónunnar lækkar auk þess sem vextir þurfa að hækka.
Allt er þetta kunnuglegt og við þessu hefur verið varað af svo til öllum þeim sem lagt hafa mat á aðgerðir stjórnvalda. En það var ekki hlustað nú frekar en áður. Formenn þeirra virðast vera staðráðnir í að vísa okkur veginn til efnahagslegar glötunar hvað sem hver segir.
Á endanum verður það svo almenningur sem borgar fyrir mistökin. Það verða ekki aðrir til þess.
Það er hins vegar ekki víst að það verði mikið borð fyrir báru hjá ríkissjóði Íslands þegar kemur að því að „leiðrétta“ mistökin þegar næsti gjalddagi rennur upp.
En hverjum er ekki sama?