Góð tilbreyting í pólitískri umræðu

Það var skynsemi í máli Ásgeirs Jónssonar hagfræðings um gjaldeyrishöftin í Vikulokunum á RÁS 1 í morgun. Umræðan um afnám haftanna í dag snýst mest um hvernig og hvenær þau verða afnumin, sem er auðvitað mikilvægt. En mikilvægara er þó, eins og Ásgeir benti á í þættinum, að ræða hvað tekur við eftir afnám haftanna, hvernig lífið í landinu verður utan hafta og hvernig okkur muni reiða af. Ásgeir vill einnig meina að umræðan um höftin, afnám þeirra og hvað síðan tekur við eigi að fara fram í samfélaginu öllu, enda sé um sameiginlegt verkefni okkar allra að ræða og skipti okkur öll gríðarlegu máli.
Allt er þetta hárrétt hjá Ásgeiri. Mikilvægast af öllu er að umræða og ákvarðanataka um þetta mikilvægasta mál samtímans hér á landi fari fram á breiðum grunni, um samfélagið allt og sem mest sátt sé um leiðina sem farin verður. Verst af öllu er að gera það sem stjórnvöld  gera, þ.e. að einangra umræðuna í lokuðum hópi og útiloka fyrir fram valmöguleika.
Það er góð tilbreyting að heyra af og til smá skynsemistóna í pólitískri umræðu á Íslandi.
Vonandi taka þeir þetta til sín sem þurfa.