Nú er rétti tíminn fyrir Guðlaug Þór

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður sjálfstæðisflokksins, vill meina að svarta skýrslan um sparisjóðina sé til vitnis um að tilraunin til að bjarga sjóðunum hafi verið gamaldags pólitík! Hann telur því að viðbrögðin við falli sparisjóðanna sé í raun ástæða falls þeirra en ekki pólitíska spillingarsukkið í aðdraganda Hrunsins.
En hver er þessi Guðlaugur Þór?
Á árinu 2007 þegar sjálfstæðisflokkurinn hafði tögl og hagldir á Íslandi borguðu útrásarfyrirtæki háar fúlgur til stjórnmálamanna. Það gerðu fyrirtækin vafalaust í þeim tilgangi að kaupa sér velvild þeirra stjórnmálamanna sem þágu þessa miklu styrki. Einn af þeim var Guðlaugur Þór sem var og er enn ókrýndur konungur styrkþega í stétt stjórnmálamanna. Í tilkynningu sem hann sendi vegna styrkjanna sem hann þá til að komast á þing tiltók hann styrki upp á meira en 25 milljónir. En hann upplýsti almenning aðeins um nöfn þeirra sem styrktu hann um rúmar 15 milljónir af þeirri upphæð. Enn er ekki vitað hver eða hverjir lögðu það sem upp á vantar inn á reikninginn hans. Kannski var Sparisjóður Keflavíkur einn af þeim? Kannski  hefur það áhrif á málflutning þingmannsins um þann ágæta sjóð? Kannski var upphæðin hærri en 25 milljónir? Það er erfitt að trúa þeim sem lifa í leynd.
En nú er rétti tíminn fyrir Guðlaug Þór Þórðarson að segja frá og klára málið til botns.
Það væru nútímaleg stjórnmál, a.m.k. í hans tilviki.