Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður framsóknarflokksins, er maður sem þekkir þjóð sína betur en margur annar. Hann hefur hitt „þúsundir af fólki“ á ferðum sínum um landið sem hafa lýst fyrir honum lífinu sínu í skugga Hrunsins. Genginn upp að hnjám arkaði Þorsteinn frá fjalli til fjöru á milli bæja fyrir síðustu kosningar og ræddi við alls konar fólk og af öllum stærðum og gerðum. Oft í trúnaði. Honum er kona sem hann hitti á ferðum sínum ofarlega í huga, framhaldsskólakennari, sem var (er) gift ríkisstarfsmanni sem telst nú tæpast gæfulegt. Þessi kona hefur þurft að lita sjálf á sér hárið og hlakkar mest til þess dags þegar hún hefur aftur efni á að láta einhvern annan gera það fyrir sig.
Þetta er forsendubrestur sem bragð er af að mati Þorsteins. Þetta misrétti þarf að leiðrétta. Með leiðréttingu. Upp á 150 milljarða. Þennan forsendubrest ætlar ríkisstjórnin, með Þorstein Sæmundsson í brjósti fylkingar, að jafna með 150 milljörðum króna af sameiginlegum skatttekjum okkar allra. Í litun og plokkun. Eftir það á engin kona, jafnvel þótt hún sé gift ríkisstarfsmanni að þurfa aftur að kjósa framsóknarflokkinn í sauðalitunum. Allra síst framhaldsskólakennslukonur sem hafa staðið í ströngu við ríkisstjórnina hans Þorsteins við að knýja fram leiðréttingu á kjörum sínum og eru nýkomnar úr þriggja vikna verkfalli.
Það eru svo sannarlega að gerast stórkostlegir hlutir á Alþingi þessa dagana þótt þjóðin í allri sinni litadýrð sé alltaf jafn leiðinleg og neikvæð.