Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður sjálfstæðisflokksins, ráðherra og formaður Vinnuveitendasambandsins, fjallar í nýlegri grein sinni um afnám gjaldeyrishafta. Í greininni bendir hann á að alþjóðlegur starfshópur um afnám haftanna, skipaður fulltrúum Seðlabanka Evrópu, AGS , Seðlabanka Íslands, FME og fleirum, hafi verið lagður niður. „Þetta er sennilega einn stærsti skaðinn sem hlotist hefur af Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar að svo komnu máli,“ segir Þorsteinn.
Þorsetinn er þar að vitna í núverandi formann sjálfstæðisflokksins sem segir í nýlegri greinargerð sinni um afnám haftanna að framangreindur starfshópur hafi verið lagður niður að kröfu ESB „í ljósi ákvörðunar ríkisstjórnar Íslands um hlé á aðildarviðræðum,“ eins og segir í greinargerðinni.
En er þetta rétt hjá Bjarna? Er þetta raunveruleg ástæða þess að ákveðið var að leggja hópinn niður? Hefur einhver spurt, tekið upp símann og hringt t.d. í framkvæmdastjórn ESB og spurt hver raunveruleg ástæða þess var að ákveðið var að slá þennan mikilvæga starfshóp af?
Það skiptir meira máli en margur heldur hver ástæðan var og er. Það skiptir máli fyrir viðhorf annarra landa til Íslands, lánakjör ríkissjóðs, fyrirtækja og síðast en ekki síst afkomu íslenskra heimila.
Reynslan á að hafa kennt okkur að þegar kemur að frásögnum af samskiptum íslenskra stjórnvalda við erlend ríki getur verið varasamt að treysta útskýringum forystumanna stjórnarflokkanna á Íslandi.
Kannski á einhver eftir að taka upp símann eða senda tölvupóst og spyrja hvað sé rétt í þessu?
Hver veit?