Árangursrík skattastefna vinstriflokkanna.

Sagt var frá því í fréttum fyrir nokkrum dögum að fimm ríkustu fjölskyldur Bretlandseyja væru ríkari en fátækasti fimmtungur þjóðarinnar til samans sem eru 12,6 milljónir manna. Þannig er það einnig í fleiri löndum og jafnvel verra.
En gæti þetta gerst hér á landi?
Já, það getur gerst. Reyndar vorum við komin vel á veg í þessum efnum fyrir Hrun þegar ójöfnuður á Íslandi var á við það sem verst gerist í heiminum, mælt á viðurkennda mælikvarða, sem mörgum fannst alveg ágætt. Skattar voru þá lágir á efnameira fólk, auðmenn og fyrirtæki, og lægri en gerðist í nokkrum þeim löndum sem við viljum miða okkur við. Í kjölfar Hruns var ráðist í viðamiklar breytingar á skattkerfinu hér á landi. Tekið var upp þrepaskipt tekjuskattskerfi, sérstakur viðbótarskattur lagður á hreina eign einstaklinga og hjóna umfram ákveðið viðmið, fjármagnstekjuskattur var hækkaður og skattar á fyrirtæki færðir í átt til þess sem þekkist í öðrum löndum (voru þó áfram lægri) en annars staðar). Markmiðið með þessum breytingum var m.a.  þetta:
1. Að afla samfélaginu tekna til að standa undir rekstri.
2. Að koma í veg fyrir enn meiri niðurskurð í velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfinu en þó varð.
3. Að koma í veg fyrir fjöldauppsagnir.
5. Að jafna lífskjörin í landinu, draga úr ójöfnuði og gera skattkerfið réttlátara.
Allt tókst þetta betur en ætlað var. Af þeim ríflega 200 milljarða halla sem var á ríkissjóði vorið 2009 var helmingur þess dekkaður með nýjum tekjum. Hitt var niðurskurður. Í stað þess að loka stofnunum, segja upp starfsfólki, neita ungu fólki um aðgang að skólum og loka sjúkrahúsum, tókst að halda þessu öllu gangandi og bæta í á mörgum stöðum. Efnameira fólk og fyrirtæki lögðu meira af mörkum til samneyslunnar en áður var og það dró úr ójöfnuði.
Nú stefnir þetta hins vegar allt í sama farið aftur. Það sem af er kjörtímabilinu hefur ríkisstjórn hægriflokkanna ákveðið að lækka tekjur um nærri 100 mia.kr. með því að lækka  veiðigjöld, afnema auðlegðarskatt og lækka skatta á fyrirtæki og einstaklinga. Það mun ekki aðeins leiða til minni tekna og meiri niðurskurðar á næstu fjórum árum heldur auka ójöfnuð á Íslandi á nýjan leik.
Þetta eigum við öll að vita af sárri reynslu.
Myndin hér að ofan sýnir þróun ójafnaðar á Íslandi samanborið við USA.