Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, segist vilja að farin verði sænsk leið við fjárlagagerðina á Íslandi. Skoðum það aðeins betur.
Fjárlaganefnd Alþingis fór til Svíþjóðar í byrjun árs 2012 í þeim tilgangi að kynna sér fjárlagagerð þarlendra og heyra af viðbrögðum þeirra og reynslu vegna efnahagserfiðleikanna sem Svíar lentu í fyrir tuttugu árum eða svo. Í stuttu máli var það svona:
1. Svíar hertu allt eftirlit með fjárlögum hvers árs.
2. Þeir settu á fót nýjar eftirlitsstofnanir með fjármálum ríkisins og styrktu þær sem fyrir voru.
3. Þeir treystu tekjustofna ríkisins og hækkuðu skatta og gjöld.
4. Þeir þrengdu mjög möguleika stjórnmálamanna til að hreyfa við fjárlögum.
5. Þeir, þ.e. samfélagið allt tók þátt í umræðu um mótun nýrra leikreglna og til varð þjóðarsátt um að láta þá atburði sem leiddu til erfiðleikanna aldrei endurtaka sig.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og stefnumótun hennar er beinlínis lagst gegn þessu öllu. Þar er talað um einföldun regluverksins, lækkun skatta og fækkun eftirlitsstofnana (Guðlaugur Þór - niðurskurðarhópurinn). Nú er verið að undirbúa að stjórnmálavæða Seðlabankann aftur og grafa undan trúverðugleika hans sem og annarra stofnana. Við gerð fjárlaga áranna 2010, 2011 og 2012 lögðu sjálfstæðismenn fram vel á annað hundrað breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið. Í stað þess að læra af reynslunni stefnir ríkisstjórn hægriflokkanna aftur í sömu átt og fyrr með einkavæðingaráformum hvar sem því verður við komið rétt eins og enginn sé morgundagurinn.
Það er því óravegur á milli hægriflokkanna á Íslandi og því sem þeir kalla „Sænsku leiðina.“ Sem er ekkert frekar sænsk en þýsk, dönsk, japönsk – eða íslensk ef miðað er við tímabilið 2010 til 2013.