Hundinum Mola var illa við reglur, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Hann hélt einnig lengi vel að hann sjálfur væri möndullinn sem heimurinn ætti að snúast um og gæti því sett öðrum reglur að vild. Honum lærðist fljótt að það var mikill misskilningur. Ein af reglunum sem Moli litli þurfti að takast á við var að fara ekki yfir ákveðna skilgreinda línu á heimilinu sem afmarkaðist við eina tröppu (sjá skýringarmynd). Þetta var einföld og skýr regla sem Moli áttaði sig fljótlega á. En hann var afar ósáttur við hana og gat ekki leynt því. Augun komu upp um hann.
En Moli litli var enginn kjáni. Hann knúði fram málamiðlun sem fólst í því að ef einhver minnsti hluti hans væri réttu megin við línuna teldist hann ekki hafa brotið regluna. Og við það sat. Það ber þó að taka fram að Moli litli var ekki smáhundur heldur stór, langur 75 kílóa hundur og gat því dreift talsvert úr sér ef hann vildi. Sem hann gerði oft. En hann passaði samt alltaf að skilja eftir smá bút, stundum bara nokkur grömm af sjálfum sér réttu megin við línuna. Eða næstum því alltaf.
En það náðist málamiðlun sem allir aðilar sættust á, sumir reyndar með hundshaus og aðrir sem fannst þeir hefðu getað náð meiru fram. En það var friður í húsinu sem byggðist á sáttatillögu hunds um mikilvægt mál.
Moli litli stóð framar mörgum manninum sem á vegi mínum hefur orðið.