Í haust voru sýndir í sjónvarpinu þættir um íslenskt mál frá öðru sjónarhorni og með öðrum hætti en gert var í útvarpinu lengi vel. Þetta voru afar vel heppnaðir og skemmtilegir þættir sem vonandi verður framhald á.
Karl Th. Birgisson hélt lengi vel úti þættinum ´Orð skulu standa´ í Ríkisútvarpinu sem var af sama meiði og naut mikilla vinsælda. Eftir að þeir voru felldir niður á RÚV og nokkra tilraunastarfsemi tókst Karli að endurvekja þessi skemmtilegheit í Þjóðleikhúskjallaranum, oftast fyrir fullu húsi gesta. Sjónvarpið sýndi upptöku af einu slíku kvöldi um helgina. Það er örugglega ekki vandalaust að gera útvarpsþætti, sem millilent hefur í Þjóðleikhúskjallaranum, góð skil í sjónvarpi. En Karl Th. Birgisson fór létt með það. Fyrir utan að vera sérlega skemmtilegir eru þættirnir ekki síður fróðlegir og gagnvirkir, þ.e. áhorfendur heima í stofu geta tekið þátt í leiknum að vild. Karli tekst einnig það sem fáum þáttastjórnendum tekst, þ.e. að setja sjálfan sig í aukahlutverk og lofa gestum að njóta sín án þess að missa tökin á þættinum. Rétt eins og góður skipstjóri sem áhöfnin fylgir án þess að vera skipað til verka.
Vel gert hjá Karli Th. Birgissyni og RÚV.