Svo galin eru þau ekki - eða hvað?

Það er eitt öðru fremur sem ég á erfitt með að skilja varðandi síðustu vikuna í íslenskri pólitík.
Hvers vegna lét sjálfstæðisflokkurinn hafa sig út í þessa vitleysu?
Hvað varð þess valdandi að Bjarni Benediktsson ákvað að láta flokkinn sinn taka á sig þennan mikla skell? Vanmat á aðstæðum er ekki gild skýring. Það vissu allir sem á annað borð eru með pólitískri meðvitund hver viðbrögðin yrðu við svona harkalegri tillögu og galinni málsmeðferð. Þetta virðist hafa verið meðvituð ákvörðun, tekin í ákveðnum tilgangi og með eitthvað markmið í huga. En það misstóks algjörlega, svo vægt sé til orða tekið.
Sjálfstæðisflokkurinn var berháttaður, rassskelltur, tjargaður og fiðraður upp á hvern einasta dag, frá morgni til kvölds, alla vikuna fyrir að berjast af hörku fyrir stefnu framsóknarflokksins og ganga hans erinda. Fylgi flokksins er hrunið, trúverðugleiki allra ráðherra hans að engu orðinn og þingmenn tala nú út og suður í málinu og virðast vera að hrekjast undan kröfum almennings. Á meðan heldur framsókn fast við sitt eins og ekkert hafi í skorist.
Ég á afar erfitt með að trúa því að forystusveit sjálfstæðisflokksins hafi gert þetta að gamni sínu.
Svo galin eru þau ekki.
Held ég.