Skurðgröftur stjórnmálanna

Á undanförnum árum hafa verið unnar fjölmargar skýrslur um mikilvæg málefni, ekki síst tengdum úrvinnslu Hrunsins. Má í því sambandi nefna skýrslur Rannsóknarnefnda Alþingis um aðdraganda og orsakir Hrunsins og um Íbúðalánasjóð og yfirgripsmikla skýrslu Seðlabankans um valkosti Íslands í gjaldmiðilsmálum. Í gær birtist svo skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um Evrópusambandið og væntanleg er mikil skýrsla um fall sparisjóðanna. Auk þess hafa verið gerðar margar úttektir og kannanir á skuldastöðu heimila og fyrirtækja, bæði af opinberum stofnunum og einkaaðilum. Það liggja sem sagt fyrir miklar upplýsingar um mörg mál sem við sem þjóð eigum að geta nýtt til að búa okkur betri framtíð.
En það er eins og við viljum það ekki. Eða getum það ekki. Eða kunnum það ekki. Í stað þess að taka rökræðu um kosti og galla út frá þeim gögnum sem fyrir liggja, notum við þau til að dýpka skotgrafirnar. Jafnvel áður en nokkur maður hefur fengið tækifæri til að lesa eða kynna sér þessi gögn, áður en nokkur rökræða hefur farið fram, áður en nokkur skynsamleg nálgun hefur orðið, liggur afstaða manna ljós fyrir. Þetta á við um marga stjórnmálamenn og almenning. Forsætisráðherra þjóðarinnar vænir jafnvel þá sem ekki eru líklegir til að vera honum sammála fyrirfram um lygar. Þannig hefur umræða um þessi stóru mál meira og minna verið og er enn. Það er eins og þeir sem gæta sérhagsmuna séu ævinlega í vinningsliðinu.
Á meðan svo er mun okkur hins vegar ekkert miða áfram sem þjóð, heldur munum við hjakka látlaust í sama farinu.
Sem er kannski markmiðið eftir allt saman?