Rangur maður á röngum stað

Samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands á hann að stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum enda telji hann það ekki ganga gegn því meginmarkmiði sínu að stuðla að stöðugu verðlagi. Af þessu leiðir að Seðlabankanum ber að leggja mat á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar út frá því hvort hún falli að því að viðhalda stöðugu verðlagi.
Forsætisráðherra hefur ítrekað gert athugasemdir við mat starfsmanna Seðlabankans á stefnu ríkisstjórnarinnar. Það gerði hann í sumar og það gerir hann aftur núna. Það þarf tæpast að undirstrika mikilvægi þess að Seðlabankinn sé sjálfstæður í störfum sínum og lúti hvorki boðvaldi né stjórn sitjandi ríkisstjórna. Í því skiptir engu máli hver seðlabankastjórinn er eða hvað hann heitir eða hver ríkisstjórnin er eða hvað forsætisráðherrann heitir. Með ítrekuðum árásum á Seðlabankann vegur forsætisráðherra í umboði ríkisstjórnar sinnar að sjálfstæði Seðlabanka Íslands og dregur um leið úr trúverðugleika efnahagsmála bæði hér heima og erlendis.  Forsætisráðherrann þolir hvorki gagnrýni á störf sín né stefnu. Hann er beinlínis skaðlegur íslensku efnahagslífi og þar með almenningi í landinu.
Hann þarf að finna sér annað starf sem hæfir honum betur.