Sagt var frá skoðanakönnunum um afstöðu fólks til krónunnar í fréttum RÚV í vikunni. Í fréttinni var sagt frá því að Íslendingar skiptist í tvær jafn stórar fylkingar í afstöðu sinni til þess hvort þeir vilji krónuna eða evru sem framtíðargjaldmiðil. Þetta var ekki alveg kórrétt, heldur að Íslendingar skiptast í tvær jafn stórar fylkingar í afstöðu sinni til þess hvort þeir vilji krónuna sem framtíðargjaldmiðil en ekki var spurt um afstöðu til annarra gjaldmiðla.
Þetta er bitamunur en ekki fjár.
Vigdís Hauksdóttir sem er einn öflugasti talsmaður framsóknarflokksins og áhrifamesti þingmaður ríkisstjórnarinnar spyr í kjölfarið hvort nauðsynlegt verði að ritskoða fréttaflutning RÚV í framtíðinni. Ástæðan: orðið „evra“ kom fram í frétt RÚV.
Þingmaðurinn hefur áður lýst afstöðu sinni og stjórnarflokkanna til RÚV eins og frægt er orðið.
Hvenær ætla fréttamenn að láta í sér heyra til að mótmæla þessum tilburðum til þöggunar?
Hvenær ætlar almenningur að mótmæla þessum tilburðum stjórnvalda til þöggunar?
Hvenær ætlar háskólasamfélagið að láta í sér heyra vegna þessara tilburða stjórnvalda til að þagga niður í fjölmiðlum?
Hvenær ætlar Alþingi að taka á þessum augljósu tilraunum stjórnvalda til að þagga niður í almenningi og fjölmiðlum?
Hvers konar aumingjaskapur er þetta?