Sjö krónur og þrjátíu og átta aurar

Að undanförnu hafa fjölmargir sjómenn misst vinnuna vegna sölu á skipum og breyttum útgerðarháttum. Skemmst er að minnast sölu Þórs HF, skipi Stálskipa í Hafnarfirði og Örvars SK frá Skagaströnd. Í fréttum síðustu daga hefur síðan verið sagt frá uppsögnum á allri áhöfn frystitogarans Brimness RE frá Reykjavík. Það hefur komið fram að gert sé ráð fyrir að skipið verði gert út undir erlendum fána og áhöfnin haldi störfum sínum.
Útgerð frystitogara hefur dregist saman á undanförnum árum. Á sama tíma hefur landvinnsla aukist og útflutningur á ferskum afurðum sömuleiðis. Sem dæmi um það eru líklega unnin um 20 þúsund tonn af ferskum fiski árlega í tveim húsum á Dalvík og Akureyri, sem veiddur er af ísfisktogurum eða línubátum. Það gerðist löngu áður en veiðigjaldið kom til sögunnar. Ástæðan er einföld; betra verð fæst fyrir ferskan fisk en frosinn, afurðirnar fara strax í sölu, birgðahald er lítið sem ekkert, neytendur kalla eftir ferskum fiski frekar en frosnum, o.s.frv.
Nú er veiðigjaldinu kennt  um þær breytingar sem eiga sér stað í útgerð frystitogara. Þegar betur er að gáð stenst það ekki skoðun.
Sérstakt veiðigjald af botnfiski á yfirstandandi fiskveiðiári er kr. 7,38- á hvert þorskígildi (sjö krónur og þrjátíu og átta aurar á hvert ígildi – brúttó). Til frádráttar koma svo fyrstu 30 tonnin sem eru gjaldfrí og næstu 70 tonn sem aðeins er greitt hálft gjald fyrir. Raungjald er því talsvert lægra en þessar 7,38- krónur.
7,38- krónur í veiðigjald af hverju þorskígildi eru því ekki ástæðan fyrir breytingum í útgerð frystitogara og uppsögnum tuga og jafnvel hundruð sjómanna.
Það býr annað að baki.