Á hvers vegum er Ólafur Ragnar í Rússlandi?

Sagt var frá því í fréttum RÚV í gær að forseti Íslands hafi „þegar bókað nokkra fundi með erlendum ráðamönnum í Sochi í Rússlandi þar sem hann sækir Vetrarólympíuleikana.“ Það kom jafnframt fram í fréttinni að af öryggisástæðum væri ekki hægt að greina frá því hvaða ráðamenn eða þjóðarleiðtoga forsetinn ætlaði að hitta eða hvenær.
En í hvers umboði mun forsetinn sitja fundi með erlendum ráðamönnum? Um hvað mun hann ræða og fyrir hönd hverra? Mun hann flytja erlendum þjóðarleiðtogum skilaboð íslenskra stjórnvalda? Ef svo er, hver eru þá þau skilaboð? Hefur forsetaembættið haft eitthvert samráð við forsætisráðuneytið, utanríkisráðuneytið eða ríkisstjórnina um væntanlega fundi forsetans með „nokkrum þjóðarleiðtogum“ í Sochi? Munu einhverjir íslenskir ráðherrar eða embættismenn sitja fundi forsetans með erlendum þjóðhöfðingjum? Mun forsetinn gera Alþingi grein fyrir fundum sínum með erlendum ráðamönnum, með hverjum hann fundaði og um hvað var rætt? Mun hann yfir höfuð upplýsa einhvern um þá fundi? Á einhver rétt á þessum upplýsingum, t.d. þjóðin?
Er það kannski orðið þannig að við kippum okkur ekki lengur upp við það að forsetinn fundi með þeim sem honum sýnist, segi það sem hann vill, sæki þá heim sem hann langar mest til að hitta og komi fram fyrir hönd Íslands hvar og hvenær sem honum þóknast?
Það var ágætt viðtal við Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta, í sjónvarpinu í vikunni. Það er ólíkum saman að jafna, Vigdísi forseta og Ólafi Ragnari Grímssyni.