Egill Helgason segir að það sé „ … ekkert óeðlilegt við að forseti sé erlendis 95 daga á ári. Annars vegar á hann jú erlenda konu og hins vegar er hann helsti stjórnandi utanríkisstefnu Íslands.“
Þetta er nú samt þó nokkuð.
Í fyrsta lagi má hafa skilning á því að forsetinn sé svolítið í útlöndum af fjölskylduástæðum enda sé það í einkaerindum, á eigin kostnað og utan hans starfa. Staðgenglar forsetans sinna þá væntanlega embætti hans á meðan en einhver aukakostnaður mun þó fylgja því. Ég sé ekki að kostnaður við staðgengla vegna tíðra ferðalaga forsetans sé tilgreindur í svarinu við fyrirspurninni.
Í öðru lagi segir Egill ekkert óeðlilegt við ferðalög forsetans þar sem hann sé „helsti stjórnandi utanríkisstefnu Íslands.“
Hvenær gerðist það að forseti Íslands varð helsti stjórnandi utanríkisstefnu Íslands? Hver gaf honum það vald? Í 11.gr. stjórnarskrár Íslands segir: „Forseti lýðveldisins er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. Svo er og um þá, er störfum hans gegna.“
Ef það er þó þannig að forsetinn er helsti stjórnandi utanríkisstefnu Íslands og það sé ástæða ferðalaga hans, er þá ekki rétt að utanríkisráðuneytið standi straum af þeim kostnaði sem af því hlýst? Og þarf forsetinn þá ekki að gera þinginu grein fyrir ferðum sínum og samtölum við stjórnmálamenn víðs vegar um heiminn?
Samkvæmt svari við fyrirspurninni er valdalaus forseti á ferðalögum í útlöndum lungann úr árinu, oft í erindagjörðum sem hann hefur ekkert umboð til að sinna.
Það hlýtur að kallar á fleiri spurningar.