Vaxandi óánægja með Hönnu Birnu

Það er raunalegt að horfa upp á viðbrögð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra við leka á trúnaðarupplýsingum úr ráðuneyti hennar. Í stað þess að gera strax hreint fyrir sínum dyrum, opna málið upp á gátt og ljúka því, hefur ráðherrann látið hrekja sig út í algjörar ógöngur. Um leið hefur henni tekist að gera vandræði sín að vanda fjölda annarra, aðstoðarmanna og fjölskyldna þeirra og ekki síst starfsfólks ráðuneytisins. Nú liggja allir undir grun sem enginn getur hreinsað þá af nema ráðherrann. En hún virðist ófær um það og gerir illt verra með hverjum deginum sem líður. Starfsandinn í ráðuneytinu mun ekki vera upp á það besta og nánustu starfsmenn og stuðningsmenn ráðherrans eru víst ekki heldur mjög kátir með það hvernig hún hefur haldið á málinu.
Ef Hanna Birna Kristjánsdóttir klórar sig ekki fram úr þessu máli á næstunni eru pólitískir dagar hennar senn taldir. Hún virðist líta svo á að því fleiri sem hún nær að flækja í málið, þeim mun líklegra sé að hún fljóti í gegnum þetta ósködduð. Það er ekki víst að allir þeir sem næst ráðherranum standa séu henni sammála um það.
Það er ekki ólíklegt að farið sé að kvarnast úr liðinu.