Nei, þetta var ekki öðrum að kenna ...!

Guðrún Johnsen, hagfræðingur og höfundur bókarinnar "Bringing down the banking system - Lessons from Iceland," var skýr og skorinorð í viðtali við Egil Helgason í sjónvarpinu í kvöld. Hrunið var ekki vondum útlendingum að kenna. Bretar felldu ekki íslensku bankana. Hægt var að koma í veg fyrir tjónið ef vilji hefði verið til þess. Seðlabankinn brást. Fjármálaeftirlitið brást. Stjórnmálamenn brugðust. Við erum ekki enn komin fyrir vind með efnahagsmálin okkar. Rangar og stórkarlalega pólitískar ákvarðanir geta haft gríðarlegar afleiðingar. Stjórnmálamenn geta enn brugðist.
Ekki að þetta séu ný sannindi, en framsetning Guðrúnar hlýtur að hafa hrist upp í þeim sem á horfðu.
Á sama tíma og Guðrún Johnsen gekk á milli aðila hér heima og reyndi að sannfæra þá um að það stefndi í efnahagslegar ógöngur lögðu þingmenn Vinstri grænna árið 2005 fram ítarlega þingsályktun sama efnis. Egill Helgason vakti athygli á henni á bloggsíðu sinni í ársbyrjun 2009. Þessi tillaga fékk ekki mikla umfjöllun í þinginu. Það er þó athyglisvert í ljósi sögunnar að renna yfir umræðurnar. Ekki síst það sem þáverandi forsætisráðherra hafði til málsins að leggja.
Það er því fullmikið sagt að allir stjórnmálamenn hafi brugðist. En þeir voru því miður of margir.
Og eru enn.