Merkileg pólitísk tilraun

Ein af kröfum Búsáhaldabyltingarinnar var að stjórnmálamenn tækju upp nýja siði við stjórn landsins. Gerð var krafa um aukið samráð, þvert á flokka, milli flokka, innan flokka og milli stjórnmálaflokka og þeirra sem utan þeirra standa. Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar brást við þessu ákalli með margvíslegum hætti. Tveir utanþingsráðherrar tóku sæti í ríkisstjórn vorið 2009. Þingsköpum var breytt til að auka vægi minnihlutans á Alþingi. Skipaðir voru fjölmargir þverpólitískir starfshópar til að fást við stór pólitísk mál á borð við afnám verðtryggingar, stjórn fiskveiða, afnám gjaldeyrishafta, skuldamál heimila og fyrirtækja, breytingar á stjórnarskránni, umsóknina um ESB, rammaáætlun og mörg fleiri mál.
Þetta er líklega ein merkilegasta tilraun sem gerð hefur verið til samráðs og samtals í íslenskum stjórnmálum. Kosturinn, og um leið helsti veikleiki þessarar aðferðar, er að allir sem að málum koma þurfa að gera það af heilum hug ef hún á að skila árangri. Því miður var því ekki að heilsa. Stjórnarandstaðan þáverandi stóð á orginu allt tímabilið, fór gegn öllum málum, gerði öll mál tortryggileg og ól á óánægju fólks vegna afleiðinga Hrunsins sem stærstu stjórnarandstöðuflokkarnir bera þó mesta ábyrgð á. Því fór þessi tilraun að miklu leyti út um þúfur.
Stjórn hægriflokkanna hefur annan háttinn á. Ekkert samstarf er við stjórnarandstöðuna um nokkur mál. Allt starf er meira og minna lokað af í þröngum hópi nánustu stuðningsmanna stjórnarflokkanna.
Fimm árum eftir Hrun hafa þessir flokkar ekki enn skilið hvað fólkið í landinu var að biðja um og munu sennilega aldrei skilja það.
Landinu er stjórnað af tiltölulega fámennri klíku harðsnúinna fylgismanna hægriflokkanna sem skara fyrst og síðast eld að sinni köku.