Blóðug samkeppni

Það er allt að því blóðug samkeppni á raforkusölumarkaðinum. Þar stendur einstaklingum og fjölskyldum m.a. til boða að kaupa rafmagn frá mörgum ólíkum aðilum sem getur sparað ófáar krónur í þungum heimilisrekstri. Fólk getur t.d. farið inn á vef Orkusetursins og borið saman þá valkosti sem því eru í boði á þessum harða samkeppnismarkaði. Sé miðað við almenna notkun upp á 5000 kwst kemur berlega í ljós að Orkubú Vestfjarða býður betur en allir aðrir eða 76.663 í.kr. á ári á meðan Orkuveita Reykjavíkur og HS orka eru lang hæst, með reikning um á 78.044 í.kr. fyrir árlega notkun. Þarna munar heilum 1.381 í.kr. á milli þessara samkeppnisaðila, eða um 3,78 í.kr. á hverjum einasta degi ársins. Og munar um minna.
Einhvers staðar þarna á milli eru svo öll hin að keppa um hylli kaupenda sem eflaust eru vel vakandi yfir þeim tækifærum sem felast í raforkukaupum á samkeppnismarkaði.
Það er reyndar rétt að taka  fram að í þessum tölum er ekki gert ráð fyrir seðilgjöldum sem eru án nokkurs vafa afar misjöfn á milli aðila og geta því hæglega kollvarpað öllum samanburði.
Til að súmmera þetta aðeins betur upp er myndin hér að ofan fengin af vef Orkusetursins og þá miðað við kaup á 10 kwst. Þar ber Orkubú Vestfjarða sigur úr býtum með kr. 14. 627 í.kr. á meðan OR og HS orka verma botninn með 14.630 í.kr. fyrir hverja 10 kwst.
LIFI ÍSLENSKA SAMKEPPNIN!