Stenst ekki skoðun

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra gerir ekki miklar athugasemdir við stórfelldar vöruhækkanir að undanförnu. Reyndar ber hann blak af þeim fyrirtækjum sem lengst ganga og kennir heimsmarkaðsverði á hrávörum og vogunarsjóðum um. Nema hvað?
Skoðum þetta aðeins betur.
Á myndinni hér til hliðar, sem tekin er af vef Bloomberg, má sjá breytingu á heimsmarkaðsverði á ýmsum hrávörum á síðasta ári (smella á myndina til að stækka hana). Þar sést m.a. að  verð á korni hefur lækkað um ríflega 40%, hveiti lækkaði um tæp 22%, sykur lækkaði um rúm 17%, sojabaunir lækkuðu um rúm 8%, sojaolía lækkaði um rúm 23% og kaffi lækkaði um ríflega 19% á síðasta ári. Mesta hækkunin hefur hins vegar orðið á Orange Juice eða tæp 30% og kakó sem hækkaði um rúm 21% á síðasta ári. Heimsmarkaðsverð á kakóbaunum hækkaði um 17% á síðasta ári.
Á sama tíma hefur gengi íslensku krónunnar styrkst um 9,5% á móti USA dollar, um 8,2% á móti pundi og 6,3% á móti evru. Það þýðir að kaupendur hér á landi hafa þurft að leggja út færri krónur á móti þessum gjaldmiðlum á síðasta degi ársins 2013 en þeir gerðu ári fyrr.
Við fyrstu skoðun virðist því ekki vera mikið á bak við fullyrðingar fjármálaráðherra um að stórfelld hækkun á heimsmarkaði skýri hækkun á vöruverði á Íslandi. Það stenst einfaldlega ekki skoðun.
Það væri þó fengur í því ef einhver stóru miðlanna myndi kafa aðeins dýpra í þetta en rannsóknarteymi á fréttastofu bvg.is hefur tök á að gera.