Bjarni setur ofan í við Sigmund Davíð

Bjarni Benediktsson staðfesti á Alþingi í morgun að forsætisráðherra hefðifarið með rangt mál í þinginu sl. þriðjudag um fyrirhugaða lækkun barnabóta. Forsætisráðherra sagði þá að um  vangaveltur og hugmyndir hefði verið að ræða en ekki mótaðar tillögur af hálfu ríkisstjórnarinnar.
Bjarni lýsti því hins vegar yfir í morgun að tillögur um lækkun barnabóta hafi verið undirbúnar í ráðuneyti hans, síðan ræddar í sérstökum ríkisfjármálahópi, skipuðum ráðherrum ríkisstjórnarinnar og að lokum samþykktar í ríkisstjórn. Ríkisstjórnin hafi síðan farið þess á leit við fjárlaganefnd að breytingar yrðu gerðar á fjárlagafrumvarpinu til samræmis við tillögur ríkisstjórnarinnar.
Fjármála- og efnahagsráðherra, sem jafnframt er formaður annars stjórnarflokksins, hefur því með mjög afgerandi hætti staðfest að forsætisráðherra reyndi að afvegaleiða þingið með því að segja því ósatt.
Það er ekki oft sem formaður stjórnarflokks talar opinberlega með þessum hætti til samstarfsmanna sinna. Það eru þó til einhver dæmi um slíkt og þá þegar ríkisstjórnir hafa verið að falla.
Yfirlýsing Bjarna Benediktssonar í morgun mun án vafa draga dilk á eftir sér í samstarfi þessara tveggja flokka. Hvað sem því líður þá er alveg ljóst að forseti þingsins getur ekki látið sem ekkert sé þegar ráðherra verður uppvís að því að segja þinginu ósatt. Það er að segja ef honum er annt um virðingu þingsins.
Sem á eftir að koma í ljós.