Björn Ingi og óánægja framsóknarmanna

Björn Ingi Hrafnsson, fyrrverandi borgarfulltrúi framsóknarflokksins, skrifar merkilegan pistil á bloggsíðu sína í gær. Þar hneykslast hann mjög á þeim hugmyndum sem upp eru komnar um blóðugan niðurskurð í vaxta- og barnabótum og til þróunaraðstoðar. Björn Ingi beinir orðum sínum að Vigdísi Hauksdóttur og segir breytingar á fjárlagafrumvarpi ekki vera einkamál hennar og að tillögurnar séu órafjarri þeim framsóknarflokki sem hann sjálfur þekkir. Björn Ingi segir það enda hafa „komið á daginn að í þingflokki framsóknarmanna eru menn og konur allt annað en sátt við framgöngu formanns fjárlaganefndar í morgun. Þar eru þingmenn raunar beinlínis æfir yfir þessu. Og þar á bæ eru menn líka allt annað en sáttir við þessar tillögur til hagræðingar sem boðaðar hafa verið og ég tel engar líkur á að þær fáist samþykktar óbreyttar.“
Virkilega? Hvernig hefur óánægja þingmanna framsóknarmanna komið fram? Hefur einhver þeirra sagt eitthvað eða gert eitthvað sem túlka má óánægju hans með niðurskurðartillögurnar? Hvar hefur þessi mikla óánægja komið fram? Hvaða þingmenn eru beinlínis æfir út af þessu?
Það liggur hins vegar fyrir að allir ráðherrar flokksins styðja þessar tillögur, enda voru þær samþykktar einum rómi á fundi ríkisstjórnarinnar föstudaginn 6. desember sl. Þetta eru því tillögur ríkisstjórnarinnar og þar með þriðjungs þingflokks framsóknarflokksins.
Það þýðir ekkert fyrir Björn Inga eða aðra talsmenn framsóknarflokksins að reyna að Vigdísarvæða vitleysuna.
Þetta er einfaldlega stefna ríkisstjórnar þeirrar sem þau Björn Ingi Hrafnsson og Vigdís Hauksdóttir styðja af öllu sínu hjarta.