Í lok mars 2009 samþykkti Alþingi einum rómi frumvarp Rögnu Árnadóttur, þáverandi dómsmálaráðherra, um breytingar á lögum um nauðungarsölu og gjaldþrotaskipti. Með samþykkt laganna var aðfarafrestur lengdur úr 15 dögum í 40 og nauðungarsölu fasteigna frestað til loka árs 2009. Þessi ákvæði laganna voru síðan framlengd fram eftir ári 2010. Þetta gaf fólki tíma og svigrúm til að ná utan um sín mál og nýta sér aðgerðir stjórnvalda til að forðast gjaldþrot og nauðungarsölur.
Nú stendur til að grípa að nýju til sams konar aðgerða, þ.e. frestunar á nauðungarsölum þar til millifærsla ríkisstjórnarinnar hefur komist í framkvæmd um mitt næsta ár. Sumir láta sem hér sé um stórmál að ræða, sem það er ekki.
Þessi fyrirhugaða lagabreyting breytir sáralitlu fyrir þá sem eru í greiðsluerfiðleikum núna þar sem millifærslan er ekki ætluð þeim, heldur hinum sem standa í skilum þrátt fyrir háar skuldir. Frestun á nauðungarsölum nú mun því í besta falli verða til þess að fólk fær lengri tíma til að semja um skuldir sínar en áður. Sem er auðvitað mjög gott ef það gagnast einhverjum. Að öðru leyti hefur fyrirhugð lagabreyting lítið ef nokkurt gildi vegna eðli millifærslunnar.
Þetta er því fyrst og síðast um ásýndarmál að ræða af hálfu ríkisstjórnarinnar.