Formaður fjárlagnefndar segir að tekist hafi samstaða milli stjórnar og stjórnarandstöðu um að mynda þjóðarsátt um Landspítalann. Varaformaður sömu nefndar segir að búið sé að finna peninga til að setja í spítalann.
Þvílíkt lýðskrum!
Eina ósættið sem verið hefur á Alþingi milli stjórnar og stjórnarandstöðu um þetta mál er fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Í því er ráðist af hörku í ástæðulausan og blóðugan niðurskurð á framlögum til rekstrar og tækjakaupa á spítalanum. Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar á ekkert skylt við þjóðarsátt um Landspítalann, frekar en formenn fjárlaganefndar við heilbrigða skynsemi.
En nú hafa fundist peningar, segir varaformaðurinn. Voru peningarnir þá týndir? Hvar fundust þeir? Nei, þeir voru ekki týndir. Þeim var hins vegar hafnað af ríkisstjórninni sjálfri síðasta sumar þegar þeir vísuðu frá tekjum af veiðigjaldi, virðisaukaskatti og síðar með lækkun tekjuskatts og afnámi auðlegðarskatts, svo fátt eitt sé nefnt. Samtals ríflega 20 milljarðar. Enda hafa ekki fundist neinir peningar, heldur á að taka þá frá öðrum og færa til Landspítalans.
Vei þeim sem leggjast gegn því.
Þeir eru á móti Landspítalanum.
Hver vill það?