Einfalt og skýrt

Fyrst þetta:
47% íslenskra heimila skulda ekki húsnæðislán. Af þeim eru 27% á leigumarkaðinum. Þessi hópur á ekki tilkall til 80 milljarðanna sem eiga að fara í niðurfærslu á verðtryggðum húsnæðislánum. Þeim peningum, sem eiga að koma úr ríkissjóði, verður skipt á milli þeirra sem eftir eru, þ.e. 53% íslenskra heimila sem skulda verðtryggð húsnæðislán. Það á að gera án þess að taka tillit til tekna eða eigna viðkomandi aðila.
Þetta eru staðreyndir sem ekki þarf að deila um.
Svo þetta:
Hverjir eru það þá sem eru líklegir til að fá mest út úr aðgerðunum og fylla upp í fjögurra milljón króna þakið sem hver og einn á að geta fengið?
Flestir sem borga auðlegðarskatt eru í þeim hópi. Flestir sem sem lifa á fjármagnstekjum einum saman eru í þeim hópi. Flestir sem eiga dýrt húsnæði eru í þeim hópi. Flestir sem eru í efsta þrepi tekjuskatts eru í þeim hópi. Margir sem eru í miðþrepi tekjuskatts eru í þeim hópi en langt því frá allir. Það eina sem þarf til er að hafa skuldað verðtryggt húsnæðislán á árabilinu 2007-2010 og hafa ekki fengið neitt af þeim u.þ.b. 100 milljörðum sem þegar hafa farið í lækkun á verðtryggðum skuldum til þessa.
Að lokum þetta:
Þetta er því ekki almenn aðgerð. Þetta er sértæk aðgerð sem nýtist best tekjuhæsta og eignamesta hópi landsins en fer svo stiglækkandi eftir því sem tekjur minnka þar til hún fjarar endanlega út í efra lagi millitekjuhópsins. Fyrst og síðast er þetta þó pólitísk aðgerð með öllum helstu einkennum hægrimanna.
Þess vegna er það hvorki vandasamt né erfitt fyrir vinstrimenn að taka afstöðu til slíkra aðgerða, hvað þá að þessar tillögur hafi sett vinstrimenn í einhvern vanda, eins og haldið hefur verið fram.
Þvert á móti er þetta býsna einfalt og skýrt.