Hægrimenn kunna ekki að stjórna

Hægrimenn hafa lengi litið svo á að þeir kunni öðrum fremur að fara með peninga, sérstaklega peninga annarra. Þeir vilja meina að þeir beri af öðrum þegar kemur að fjármálum, sérstaklega fjármálum ríkisins. Þeir tala látlaust um aga í fjármálum ríkisins en eru þó þekktastir fyrir agaleysi. Þetta kom best fram í aðdraganda Hrunsins. Þá fóru þeir 5-8% fram úr fjárlögum á hverju ári eins og bent hefur verið á (bls.2) og fjármálaráðherra viðurkennir í dag (bls. 67). Þetta kom líka ágætlega fram þegar þeir einkavæddu eignir ríkisins sem fór heldur illa. Stundum gleymdu þeir meira að segja að innheimta söluandvirðið eins og sjá má hér (bls. 5 – Sementsverksmiðjan) eða skiluðu ekki söluandvirðinu til ríkisins (bls. 7 – Lánasjóður landbúnaðarins), svo dæmi séu tekin. Ekki þarf að rifja upp hvernig þeir fóru með sjálfan Seðlabankann – eða hvað?
Samt halda þeir því alltaf fram að fjármál séu þeirra fag, hægrimennirnir. Það eru líka ótrúlega margir sem trúa að þannig sé það. Þó er ekkert sem rökstyður það. Ekkert. Þvert á móti bendir flest til þess að þeir kunni ekkert með peninga að fara og allra síst peninga annarra.
Er ekki löngu fullreynt að hægrimenn kunni að fara með opinber fjármál?