Kjarninn og hismið

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur orðið við beiðni lögmanns Geirs H Haarde um að skoða málatilbúnaðinn gegn Geir, ákæruna og dóminn.
Mannréttindadómstóllinn mun komast að því að ákæran á hendur Geir var byggð á skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir Hrunsins, nefndar sem skipuð var að frumkvæði Geirs, forseta Alþingis og formanna allra flokka á Alþingi. Dómstóllinn mun einnig komast að því að þverpólitísk þingmannanefnd gerði að vel athuguðu máli tillögu til þingsins um að Geir yrði ákærður. Dómstóllinn mun væntanlega fá upplýsingar um að meirihluti Alþingis ákvað að ákæra Geir og tveir þingmenn sem á sínum tíma lögðu til og studdu ákæruna á hendur Geir eru nú ráðherrar í ríkisstjórn Íslands. Mannréttindadómstóllinn mun svo komast að því að Landsdómur var skipaður mörgum af reyndustu og færustu lögmönnum landsins sem sýknuðu Geir af sumum ákæruatriðum en dæmdu hann sekan um önnur.
Mannréttindadómstóll Evrópu mun þess vegna komast að því að ákæran á hendur Geir H Haarde var á rökum reist og hann fékk sanngjarna og réttláta meðferð fyrir Landsdómi.
Er það ekki aðalatriðið?