Formenn stjórnarflokkanna drógu upp dökka mynd af stöðu ríkissjóðs í sumar. Sögðu hana miklu mun verri en haldið hafi verið fram. Því væri óhjákvæmilegt að skera hraustlega niður í rekstri ríkisins. Formennirnir hafa aldrei verið krafðir um gögn, máli sínu til rökstuðnings. Hins vegar streyma upplýsingar úr fjármálaráðuneytinu sem sýna hið gagnstæða. Í lok ágúst komu fram upplýsingar um að greiðsluafkoma ríkisins fyrstu sjö mánuði ársins hafi verið betri en reiknað var með. Nú birtir fjármálaráðuneytið upplýsingar um fyrstu níu mánuði ársins sem undirstrikar það sem áður hafði komið fram að afkoma ríkissjóðs er betri en áætlanir gerðu ráð fyrir, tekjur hærri og gjöld lægri. Samt heldur ráðherrann því fram að þessu sé einmitt þveröfugt farið og snýr öllu á hvolf.
Af hverju er ráðherrann ekki krafinn um gögn sem styðja hans mál? Af hverju koma engar aðrar upplýsingar fram úr hans eigin ráðuneyti en um hið gagnstæða?
Af hverju komast formenn stjórnarflokkanna upp með að ljúga svo blákalt að þjóðinni án þess að þurfa að svara fyrir það í fjölmiðlum?
Af hverju spyr enginn?