Óreiðustjórnmál hægriflokkanna

Það var fátt sem sameinaði stjórnarandstöðuna meir á síðasta kjörtímabili en andstaða við sameiningu stofnana. Skoðum nokkur slík dæmi:
Dæmi 1: Í mars 2010 lagði Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra fram frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum þar sem m.a. var gert ráð fyrir sameiningu og fækkun lögregluembætta.
Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi þingflokksformaður framsóknar, varaði mjög við samþykkt frumvarpsins. Unnur Brá Konráðsdóttir sagði sameiningu sjaldan borga sig og hafði miklar efasemdir um málið. Einar Kristinn Guðfinnsson, núverandi forseti Alþingis, sagði frumvarpið bæði óraunhæft og óskynsamlegt og sagðist reyndar hafa fátt jákvætt um það að segja.
Dæmi 2: Í mars 2012 lagði Ögmundur Jónasson fram frumvarp til laga um fækkun sýslumannsembætta. Unnur Brá Konráðsdóttir sagði enga hagræðingu felast í fækkun og sameiningu embættanna og ekki á nokkrun hátt hægt að rökstyðja það með góðu móti. Birgir Ármannsson lagðist einnig gegn málinu.
Þetta frumvarp dagaði uppi í þinginu.
Dæmi 3: Frumvarp um sameiningu samgöngustofnana var til umræðu í þinginu allt síðasta kjörtímabil við mikla andstöðu stjórnarandstöðunnar. Ásbjörn Óttarsson, þingmaður sjálfstæðisflokksins, sagði enga hagræðingu vera af slíkri sameiningu. Sigurðir Ingi Jóhannsson framsóknarmaður tók undir með Ásbirni og sagði ekkert vinnast með sameiningu. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, var sama sinnis og vildi fresta málinu og velti fyrir sér einkavæðingu þessara stofnana.
Hér má svo sjá niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar um málið.
Dæmi 4: Sameining þriggja lítilla slysa-rannsóknarnefnda var til umræðu í þinginu allt síðasta kjörtímabil. Ásbjörn Óttarsson sjálfstæðismaður sagði sameininguna mikla afturför og það ætti að verða fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar að fella hana úr gildi. Guðlaugur Þór Þórðarson lagðist gegn málinu og hvatti almenning til að láta í sér heyra svo hægt væri að stoppa málið. Það gerði Gunnar Bragi Sveinsson líka og Illugi Gunnarsson sagði það vera mikil mistök að sameina þessar þrjár nefndir.
Hér má svo sjá hvernig þingmenn greiddu atkvæðu um þessa sameiningu.
Svo má bæta við þetta sameiningu skattstofa og fækkun ráðuneyta og endurskipulagið í stjórnarráðinu. Hægriflokkarnir lögðust gegn þeim öllum.
Nú dettur mér ekki í hug að halda því fram að þingmenn þessara flokka hafi allir í hjarta sínu verið andsnúnir slíkri sameininguu. Heldur var andstaða þeirra hluti af þeim óreiðustjórnmálum sem þessir flokkar stunduðu síðasta kjörtímabil. Þeir lögðust beinlínis gegn öllum málu, gerðu öll mál að stórum deilumálum og börðust gegn þeim með öllum ráðum. Markmiðið var að lama þingstörfin og skapa óánægju hjá almenningi sem þeim tókst að nokkru leyti. Tilgangurinn var látinn helga meðalið og flokkarnir teknir framar almannahagsmunum.
Sem endurspeglast best í því að nú leggja þeir fram mál sem þeir börðust gegn fyrir nokkrum mánuðum.