Það hefur komið fram að skv. hagræðingarhópi úrvalsþingmanna stjórnarflokkanna bárust ríflega 600 tillögur frá almenningi. Hópurinn leggur fram 111 tillögur. Rúmlega þriðjungur þeirra eru gamlar tillögur. Eftir standa þá um 70 tillögur sem gera má ráð fyrir að sé einhvers konar sambland af tillögum sem annars vegar bárust hópnum og hins vegar þeim sem þau föttuðu sjálf upp á. Gefum okkur að þetta skiptist nokkuð jafnt milli þingmannahópsins og innsendra tillagna. Nei, annars. Gefum okkur að þingmönnum hafi ekkert dottið í hug og allar þessar 70 tillögur hafi borist þeim frá almenningi. Það þýðir þá að aðeins 12% tillagna hafa hlotið náð fyrir augum úrvalssveitarinnar. Það er ekki mikið. Ríflega 500 tillögum eða 88%, hefur þá verið hafnað samkvæmt þessu. Hvaða tillögur voru það sem ekki komust í gegn? Af hverju var þeim hafnað? Var það af pólitískum ástæðum? Komu kannski 300 tillögur um að ljúka aðildarviðræðunum við ESB? Komu kannski 100 tillögur um að byggja nýjan Landspítala? Komu kannski 50 tillögur um að fækka aftur ráðuneytum? Getur það verið að enginn af þeim ríflega 600 sem lögðu á sig að senda inn tillögur hafi komið með hugmynd um hvernig auka megi tekjur ríkisins? Komu kannski 200 tillögur um að færa veiðigjald í sjávarútvegi til fyrri vegar? Stungu kannski einhverjir upp á því að framlengja auðlegðarskattinn? Eða jafnvel um að horfið verði frá skattalækkunum til að koma í veg fyrir niðurskurð?
Getur það yfir höfuð verið þannig að nærri 9 af hverjum 10 tillögum frá almenningi hafi verið það slæmar að ekki hafi þótt ástæða til að taka tillit til þeirra?
Er ekki full ástæða til að kalla eftir öllum þeim tillögum? Þó ekki væri nema til þess að sýna þær?
Af hverju þessi leynd?