Ódýr afsökun formanns framsóknarflokksins

Á vef RÚV má lesa þessa frétt: „Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að staða og horfur í ríkisfjármálum séu verulegt áhyggjuefni. Samkvæmt nýjustu upplýsingum sé útlitið að óbreyttu miklu verra en haldið var fram í aðdraganda kosninga.“

Nú má auðveldlega draga þá ályktun af kosningaloforðum Sigmundar að hann hafi ekki haft hugmynd um erfiða stöðu ríkissjóðs. Um fátt hefur þó meira verið rætt hér á landi á undanförnum árum, bæði innan þings og utan. Um fá mál liggja jafn ítarlegar upplýsingar fyrir og um ríkisfjármálin, stöðu þeirra, erfiðleikana og horfurnar á næstu árum. Það er því erfitt að ímynda sér að allar þær upplýsingar hafi farið fram hjá formanni framsóknarflokksins, nema hann hafi ekki haft fyrir því að afla sér þeirra, látið umræður um þessi erfiðu mál fram hjá sér fara eða ekki fundið fyrir þeim á eigin skinni.

Fyrir áhugasama er hins vegar ógrynni af gögnum og efni um ríkisfjármálin að finna á veraldarvefnum. Hér eru nokkur dæmi:
Á vef fjármálaráðuneytisins má finna nokkur stutt myndbönd um ríkisfjármálin, nokkurs konar byrjendakennslu sem getur gagnast þeim sem vilja byrja að kynna sér þessi mál.
Á heimasíðu fjármálaráðuneytisins er sömuleiðis að finna ýmiss konar fróðleik um fjárlög 2013 sem ætti einnig að geta gagnast einhverjum.
Í frumvarpi til fjárlaga 2013 er ítarlega fjallað um stöðu ríkisfjármálanna. Þar kemur m.a. fram að „Vonir manna um skjótan bata í efnahagsmálum á alþjóðavísu hafa dvínað“ (bls. 9) og það muni óneitanlega hafa áhrif á efnahagsmál hér á landi. Á sömu síðu segir að „Á árunum eftir bankahrunið og fram til ársins 2010 naut ríkissjóður ekki lánstrausts á alþjóðlegum mörkuðum“ en nú sé staðan hins vegar betri vegna markvissrar vinnu við að skapa traust alþjóðasamfélagsins á Íslandi.
Á bls. 10 er m.a. farið yfir skuldastöðu ríkisins í máli og myndum. Þar kemur m.a. fram að „Áætlað er að skuldir hins opinbera að sveitarfélögum meðtöldum hafi numið 1.616 mia.kr. í lok árs 2011 eða sem nemur 99% af VLF.“
Á heimasíðu DataMarket er að finna aðgengilegar upplýsingar og greiningar á fjárlögum ársins sem fróðlegt er að skoða fyrir þá sem hafa áhuga og jafnvel atvinnu af að fjalla um þessi mál. Til gamans má geta þess að einn eigenda DataMarket er Frosti Sigurjónsson, þingmaður framsóknarflokksins og arkitektinn að efnahagstillögum flokksins. Hæg heimatökin hjá formanninum að nálgast þessar upplýsingar hjá félaga Frosta.
Landsbankinn fjallaði ítarlega um fjárlagafrumvarp 2013 um miðjan desember sl. Þar er m.a. getið um þann óumdeilda árangur sem hefur náðst í fjármálum ríkisins frá Hruni jafnframt því sem bent er á ýmsa veikleika og fyrirsjáanlega erfiðleika, m.a. vegna mikilla skulda, vaxtagreiðslna, Íbúðalánsjóðs o.m.fl.
Að lokum má svo rifja upp að undir lok árs 2011 var haldin stór alþjóðleg ráðstefna hér á landi um efnahagsmálin á Íslandi, Hrunið, úrvinnslu þess og horfur til framtíðar. Það gæti verið athyglisvert fyrir þá sem ekki hafa enn áttað sig á efnahagslegum erfiðleikum Íslands að eyða smá tíma í að rifja upp það sem fram kom á þessari ráðstefnu. Það má gera hér.
Það má því víða leita fanga fyrir þá sem vilja kynna sér stöðu efnahagsmála á Íslandi, að ekki sé nú talað um þá sem ættu að vita betur, eins og  formaður framsóknarflokksins..
Nema hann sé að blöffa til að komast undan kosningaloforðunum.