Til að það sé á hreinu ...

Kosningaloforð framsóknarflokksins var skýrt og afdráttarlaust: „Til að það sé á hreinu kemur leiðrétting skulda fram strax …“, sagði SDG, formaður flokksins, nokkrum dögum fyrir kosningar. Formaður sjálfstæðisflokksins gagnrýndi yfirboð framsóknarmanna harðlega og sagði þau vera óraunhæf loforð upp á mörg hundruð milljarða sem ekki væri hægt að standa við. Samt sem áður fór það þannig að þessir tveir flokkar mynduðu ríkisstjórn um kosningaloforð framsóknar. Formaður framsóknar, sem situr í skjóli sjálfstæðisflokksins í forsætisráðuneytinu, heldur svo áfram yfirboðunum hvenær sem hann kemst í færi til þess. En það gerir hann án stuðnings samstarfsflokksins. Ekki lengur.
Enginn ráðherra sjálfstæðisflokksins tók þátt í umræðum á Alþingi í dag um stóra loforðið sem ríkisstjórnin er þó mynduð um. Undir forystu formanns flokksins yfirgáfu þeir allir þinghúsið um leið og formaður framsóknar sté í ræðustól og hafa ekki gefið færi á sér síðan.
Með því sýndu þeir ekki aðeins andstöðu sína við málflutning forsætisráðherra og framsóknar með táknrænum hætti heldur sögðu þeir sig beinlínis frá málinu.
Úr þessu getur aðeins tvennt gerst: Framsóknarflokkurinn krefur formann sjálfstæðisflokksins um skilyrðislausan stuðning við kosningaloforð sín eða sjálfstæðisflokkurinn krefur framsókn um að draga í land.