Keisarinn er á sprellaranum

Það er ljóst að verulegir brestir eru komnir í stjórnarsamstarf hægriflokkanna. Formaður sjálfstæðisflokksins virðist nota þau tækifæri sem gefast til að koma sér í skjól frá stóra loforði framsóknarflokksins. Framsóknarflokkurinn hefur enn ekki getað staðið við nein loforða sinna, hvorki stór né smá, á meðan sjálfstæðisflokkurinn sinnir sínum umbjóðendum með skattaniðurfellingum og veiðigjaldalækkunum á bæði borð. Það virðist einnig hafa komið formanni sjálfstæðisflokksins jafn mikið á óvart og þjóðinni allri að forsætisráðherra hafi svo á dögunum skutlað sér fyrirvaralaust í frí á miðri vertíð.
Pirringurinn milli formannanna tveggja er að verða allt að því áþreifanlegur.
Forsætisráðherra sló svo í gær nýja tóna í loforðagloríu sinni þar sem má í fyrsta sinn greina efa um efndir af hans hálfu. Nú er það stjórnarandstaðan sem stendur í vegi fyrir því að stjórnin geti efnt stóra loforðið. Þó eru engin dæmi tekin um það. Hvernig mætti það líka vera þegar ekkert mál tengt loforðinu er enn komið til þingsins? Hvað stendur í vegi fyrir því að ríkisstjórn með 13 þingmanna meirihluta á Alþingi nái fram sínu helsta kosningamáli - stærstu skuldaniðurfellingu veraldarsögunnar?
Ég spái því að fréttir næstu daga muni í auknum mæli snúast um að ekki verði hægt að efna loforð allra loforða og öðrum verði kennt um. Fyrst stjórnarandstöðunni, síðan samstarfsflokknum. Í þeirri umræðu verða allir raftar dregnir á flot sem líklegir eru til að fljóta í þeim pytti.
Undanhaldið er hafið.
Keisarinn er á sprellaranum.