Kjarninn er líklega það besta sem gerst hefur í fjölmiðlun hér á landi svo lengi sem ég man. Hann er rammpólitískur, úr öllum áttum, faglegur á allar hliðar og við hann starfar afbragðshæft starfsfólk sem rúmast illa innan þröngra veggja annarra fjölmiðla í einkaeigu. Kjarninn er á pari við RÚV þó um leið sé himinn og haf þar á milli.
Hér er hluti leiðara Kjarnans í dag:
„Stjórnmálamönnum ber skylda til þess að slíðra sverðin og horfast í augu við stöðuna eins og hún er. Forsvarsmenn nýrrar ríkisstjórnar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, hafa ítrekað sagt að það verði að afnema fjármagnshöftin. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Seðlabankinn hefur birt er það ekki hægt á grundvelli núverandi fyrirkomulags peningamála. Þvert á móti þarf að setja mikil höft á fjárfestingar til og frá landinu, einkum á fjárfestingar fagfjárfesta, til þess að kerfið sem notast er við gangi upp. Aðeins á þeim forsendum verði hægt að notast við krónuna áfram. Þetta þýðir í reynd að það stendur alls ekki til að afnema höftin. Það er tæknilega ómögulegt vegna þess hve staða Íslands er viðkvæm. Það sem Sigmundur Davíð og Bjarni segja ítrekað er því ekki rétt, miðað við þær upplýsingar sem birtar hafa verið opinberlega um stöðu mála.“
Þetta er k(K)jarni málsins.